A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Punktar eftir sveitarstjórnarfund 1351

Þorgeir Pálsson | 11. október 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Í gær var sveitarstjórnarfundur 1351 haldinn í Hnyðju.  Þetta var góður fundur og góð samstaða um þau mál sem voru tekin fyrir.  Það var líka ánægjulegt að sjá þá íbúa sem komu á fundinn og fylgdust með.  Og það er rétt að árétta, að allir sveitarstjórnarfundir eru opnir almenningi, nema ef um trúnaðarmál er að ræða.


Mig langar að nefna hér nokkur þeirra mála sem rædd voru á fundinum, en svo má einnig lesa fundgerð fundarins hér, eða á heimasíðu Strandabyggðar.

Velferðarþjónusta vestfjarða

Á fundinum var farið yfir samning sem öll sveitarfélög á Vestfjörðum, utan Strandabyggðar, hafa samþykkt.  Samningurinn snýr að þjónustu í barnaverndamálum og í málefnum fatlaðs fólks.  Ísafjarðarbær er leiðandi sveitarfélag og heldur utan um alla stjórnsýslu samningsins.  Strandabyggð mun fá fulla aðild að samningnum samkvæmt viðauka sem öll sveitarfélögin samþykkja.  Það er mikilvægt fyrir alla að þessi samningur skuli orðinn að veruleika, ári eftir að umræða um hann hófst á Fjórðungsþingi, 2022 á Patreksfirði.  Við munum kynna Velferðarþjónstu Vestfirðinga síðar, þegar öllum formsatriðum er framfylgt. 

Félagsþjónusta Stranda og Reykhóla og nú líka Dalabyggðar, mun eftir sem áður starfa, en mun þó taka einhverjum breytingum þar sem Dalabyggð sameinast okkur í Félagsþjónustunni.  Þar verður áfram sú þjónusta sem verið hefur, félagsmálastjóri er þar áfram sem fyrr o.s.frv.  það er aðeins í barnaverndarmálum og málefnum fatlaðra sem við snúum okkur til Velferðarþjónustu Vestfjarða.

Aukin fjárframlög til Slökkviliðsins. 

Ákveðið var að auka framlög til Slökkviliðsins en þar vantaði orðið nokkuð vegna lækkunar fyrri áætlunar.  Það hefur orðið mjög mikil nýliðun í Slökkviliði Hólmavíkur undanfarið og er það mjög jákvætt.  Margir hafa sótt grunnnámskeið og það er góður og jákvæður hópur sem prýðir slökkviliðið okkar þessa dagana.

Sterkar Strandir

Farið var yfir fundargerð verkefnastjórar frá 24 ágúst s.l.  Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur nú formlega óskað eftir áframhaldandi aðild að verkefninu Brothættar byggðir og hefur umsóknin verið móttekin.  Ég mun fara á Sauðárkrók á morgun, fimmtudag, til að fylgja þessu máli eftir, sem og umsókn um sértækan byggðakvóta sem einnig er farin til Byggðastofnunar.  Sértækum byggðakvóta er ætlað að mæta því áfalli sem lokun Hólmadrangs var fyrir atvinnulíf og samfélagið allt í Strandabyggð. 

Sorpsamlag Strandasýslu

Á fundinum var farið yfir fundargerð stjórnar Sorpsamlagsins frá 4. október s.l.  Þar var rætt um húsnæðismál Sorpsamlagsins og þá hugmynd að taka á leigu hluta sláturhússins.  Ástæða þessa er sú staðreynd, að Sorpsamlagið þarf stærra húsnæði til að mæta aukunum umsvifum og nýjum reglum varðandi sorphirðu.  Ákveðið var að horfa frá leiguhugmyndum en vinna þess í stað að uppbyggingu á framtíðarhúsnæði Sorpsamlagsins.

 

Vinnuskýrslur forstöðumanna og sveitarstjóra

Á hverjum fundi sveitarstjórnar er farið yfir verkefni forstöðumanna og sveitarstjóra.  Oft skapast umræður um einstök verkefni og lagðar eru fram spurningar til að skerpa á stöðu mála.  Ég hvet íbúa til að kynna sér þessar skýrslur sem eru aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Ýmislegt annað rætt

Á hverjum sveitarstjórnarfundi eru mörg mál lögð fram til kynningar sem fá samt enga umræðu.  Það er þó alls ekki þannig að þau gögn séu ekki lesin af sveitarstjórn og oft er vísað einstök mál í þeim gögnum.  En, allt er þetta lesið og er liður í að halda sveitarstjórn upplýstri hvað varðar mál í stoðkerfinu, hjá t.d. Vestfjarðastofu, Fjórðungssambandinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hafnarsambandi Íslands ofl ofl.

Ég mun setja svona stutta pistla á heimasíðuna í kjölfar sveitarstjórnarfunda til upplýsingar fyrir íbúa. 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Oddviti

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón