A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Staðardalsrétt

Þorgeir Pálsson | 18. september 2022
« 1 af 4 »

Kæru íbúar Strandabyggðar og aðrir hlutaðeigandi,

Í dag, sunnudaginn 18. september, var réttað í nýrri rétt í Staðardal. Þessi nýja rétt leysir af hólmi gömlu Staðarrétt sem er komin vel til ára sinna og orðin lúin, enda búin að þjóna vel í gegnum tíðina.  Þessi nýja rétt er önnur af tveimur nýjum réttum sem reistar hafa verið í haust og eru báðar gott merki um þá verkþekkingu og framsýni sem býr í bændum í Strandabyggð.

Þessi nýja rétt, sem er í landi Hrófbergs, er um margt nýstárleg og óhefðbundin.  Enda var haft á orði í dag, að nú gætu krakkarnir ekki lengur dregið í dilka líkt og áður.  Þessi rétt er með svokölluðum flokkunargangi, sem bændur hafa notað víða í fjárhúsum, en er ekki algengt form hvað réttirnar sjálfar varðar.  Hin nýja rétt er ein örfárra slíkra á landinu.  Þetta verklag tryggir betra flæði og minna álag á féð.

Heiðurinn að þessari uppbyggingu réttarinnar eiga þau hjón Magnús og Marta á Stað, sem að öðrum ólöstuðum hafa sýnt einstakan áhuga og eljusemi í þessu verkefni.  Hugmyndavinnan á sér langan aðdraganda sem í dag skilaði sér sérlega vel.  Þeim hjónum og börnum og tengdabörnum þeirra, sem einnig komu hingað til að vinna við réttarsmíðina, er þakkað einstakt framlag og framsýni.

Sömuleiðis fær Haraldur Jónsson smiður og bóndi góðar þakkir, en hann miðlaði af sinni miklu fagþekkingu og tók að sér hlutverk yfirsmiðs. 

Margir aðrir komu einnig að verkefninu og má þar nefna, Birki Þór Stefánsson í Tröllatungu, Þorvald Garðar Helgason, krakkana á efsta stigi í Grunnskólanum á Hólmavík og listakennarann þeirra, Diddu Hjartardóttur Leaman sem gerðu skiltið og marga fleiri.  Kærar þakkir til allra sem komu að gerð réttarinnar með einum eða öðrum hætti.

Síðast en ekki síst ber að nefna landeigandann, Einar Gottskálksson og fjölskyldu hans, sem frá upphafi hafa sýnt verkefninu mikinn skilning og stuðning.  Þeim þökum við sömuleiðis kærlega fyrir.  Það má með sanni segja að þess nýja rétt rísi með sterkt bakland, stuðning og áhuga margra.

Um leið og við þökkum gömlu Staðarrétt fyrir dygga þjónustu, tökum við í notkun Staðardalsrétt í landi Hrófbergs í Staðardal og það er einlæg ósk okkar allra að hún muni þjóna notendum sínum vel og lengi.

Til hamingju Strandabyggð!

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Oddviti.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón