A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Niðurstöður úttektar á Grunnskólanum á Hólmavík

| 03. maí 2012
Mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsti fyrr í vetur eftir umsóknum frá grunnskólum á Íslandi sem vildu láta gera úttekt á starfsemi sinni. Að frumkvæði skólastjórnenda Grunnskólans á Hólmavík var send inn umsókn til ráðuneytisins og var skólinn einn af örfáum skólum sem var valinn úr fjölda umsókna sem bárust. Niðurstöður úttektarinnar verða notaðar til áframhaldandi þróunar skólastarfs í Strandabyggð. Meðfylgjandi frétt um úttektina birtist á fréttavef BB, sjá hér:

Skólabragur jákvæður á Hólmavík

Andinn innan Grunnskólans á Hólmavík virðist mjög opinn og segja nemendur auðvelt að ná sambandi við kennara, stjórnendur og annað starfsfólk. Þetta kemur fram í úttekt á starfsemi skólans sem gerð hefur verið fyrir menntamálaráðuneytið. „Almennt virðist það viðhorf ríkja meðal nemenda, foreldra og kennara að skólabragur sé jákvæður, nemendum líði vel í skólanum og viðhorf til skólans sé jákvætt í samfélaginu," segir meðal annars í úttektinni.

Grunnskólinn á Hólmavík er fámennur skóli með 80 nemendur. 63 þeirra koma úr kaupstaðnum Hólmavík en 17 nemendur úr sveitunum og nýta sér daglegan skólaakstur. Í úttektinni kemur fram að skólinn er vel mannaður hvað fjölda kennara varðar. 7,3 nemendur eru á hvern kennara en að auki starfa við skólann þrír stuðningsfulltrúar í 80% starfi hver. Hlutfall réttindakennara er 88%. Starfsmannavelta var talsverð fyrir nokkrum árum en dregið hefur úr henni allra síðustu ár.

Húsnæði grunnskólans ber á mörgum stöðum glögg merki ófullnægjandi frágangs og viðhalds. Kennslustofur virðast henta vel þeim bekkjarstærðum sem í skólanum eru. Íþróttahús og sundlaug eru vestast í kauptúninu og í félagsheimilinu fer fram heimilisfræðsla. Mötuneyti er á Café Riis. Þetta hefur í för með sér að senda þarf nemendur á milli húsa. Þegar illa viðrar er börnum ekið í skólabíl á milli.

Á síðustu tveimur árum hefur verið unnið að því að styrkja lýðræðislega stjórnunar- og starfshætti í skólanum. Skerpt hefur verið á eftirlitshlutverki skólanefndar. Af hálfu sveitarstjórnar hefur skólastjóra verið fengin aukin fjárhagsleg og rekstrarleg ábyrgð.

Samkennsla árganga er mikil og tveggja kennara kerfi er viðhaft í hverjum námshópi nema þeim elsta. Þetta form líkar vel í skólanum en það felur í sér allmikla mönnun á hvern námshóp.

Í skólanámskránni er áhersla lögð á að brugðist sé við þörfum hvers nemanda og hann fái krefjandi viðfangsefni við sitt hæfi. Starfið á að mótast af einstaklingsmiðuðum kennsluháttum og samvinnu nemenda. Ýmis áform hafa þó ekki náð fram að ganga.

Þótt skólinn hafi mótað stefnu um einstaklingsmiðaða kennsluhætti gætir klínískrar afstöðu meðal kennara og foreldra til náms. Mikil áhersla hefur verið á sérkennslu þar sem nemandi er tekinn út úr tíma og honum ætluð einstaklingskennsla. Sjálfsmat skólans er enn í mótun.

Skólastjóri hefur unnið vandaða samantekt á námsárangri nemenda á samræmdum könnunarprófum en árangur nemenda er nokkuð undir landsmeðaltali. Niðurstöður síðustu prófa gefa hins vegar vonir um að betri árangur sé að nást í skólanum.

Úttektin í heild

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón