A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

,,Ekkert meira, ekkert minna, bara sama og aðrir“

| 07. apríl 2011
Ögmundur Jónasson, mynd af BB.is
Ögmundur Jónasson, mynd af BB.is
Eftirfarandi frétt birtist á fréttavefnum BB.is í dag:

„Þyrftum öll að vera frá Trékyllisvík," er yfirskrift pistils sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skrifar um ferð sína og ríkisstjórnarinnar til Ísafjarðar í vikunni. Ögmundi er tírætt um fund ríkisstjórnarinnar og vestfirskra sveitarstjórnarmanna um málefni sem á landshlutanum brenna. „Þar loga svo sannarlega eldarnir í þeim skilningi að fólki hefur fækkað og þrengt hefur að sveitarfélögunum í seinni tíð," skrifar Ögmundur. „Við áttum hins vegar ekki samræður við beygt fólk. Því fór fjarri. Sjaldan hefur ég setið fundi með eins kraftmiklu fólki, bjartsýnu og innblásnu af lífsvilja. Hver ræðumaðurinn á fætur öðrum hreyfði við þeim sem á hlýddu með ígrunduðum og sannfærandi málflutningi og sagði fundarstjórinn í fundarlok, hinn gamalreyndi sveitarstjórnarmaður, Magnús Reynir Guðmundsson, eitthvað á þá leið að síst færi sveitarstjórnarmönnum aftur ef dæma skyldi af þessum fundi," segir Ögmundur.

„Rauði þráðurinn í málflutningi sveitarstjórnarfólks var öllum augljós: Við viljum sitja við sama borð og aðrir landsmenn í samgöngumálum, hvað varðar húshitunarkostnað, flutningskostnað. Ekkert meira, ekkert minna, bara sama og aðrir," skrifar Ögmundur.

Erindi Ingibjargar Valgeirdóttur, sveitarstjóra Strandabyggðar, varð ráðherranum að umhugsunarefni. „Margt var vel sagt á þessum fundi. Eftirminnileg eru orð Ingibjargar sveitarstjóra Strandabyggðar, sem minntist æskuára sinna í Trékyllisvík. Sú vík væri ekki smá í sínum huga, heldur stór og hefði farið vaxandi í vitund sinni eftir því sem á ævina hefði liðið og hún sjálf farið víðar um heiminn," skrifar Ögmundur og heldur áfram „Mér varð að umhugsunarefni við þessi orð hve margt er afstætt. Stór staður getur verið lítill í huga manns en lítil vík mikil um sig. [...] Í stórum löndum fæðist fólk í þéttbýli eða dreifbýli, upp til fjalla eða til sjávar. Uppruninn er ekki höfuðatriði heldur sýn okkar á hann, sjálfsvitund okkar. Þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll frá okkar Trékyllisvík. Aðeins að við komum auga á hana."

Í niðurlagi pistilsins segir Ögmundur: „Það sem Ingibjörg Strandakona og valkyrjurnar af Vestfjöðrum voru að segja - fyrirgefið strákar, þið voruð líka flottir - var ef til vill fyrst og fremst þetta: Við megum aldrei gleyma því að alls staðar býr í fólki hæfileikar og sköpunarkraftur. Á hann má ekki stíga. Hann verður að virkja og láta blómstra okkur öllum til góðs."

Pistil Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, má sjá hér.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón