A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Efnahagskreppan og Strandabyggð

| 16. desember 2008

Efnahagskreppan og Strandabyggð.

 

Ég vil byrja á því að þakka Jóni Jónssyni fyrir góða grein og þarfa ábendingu um að lesa megi úr fundargerð sveitarstjórnar Strandabyggðar að ætlunin sé að leggja árar í bát.  Því fer víðs fjarri og endurspeglar ekki þá umræðu sem átt hefur sér stað hjá sveitarstjórn, þó fundargerð gæti sýnt annað.  Enn á þó sveitarstjórn eftir að ákveða til hvaða aðgerða verður gripið sem mótvægi við minni tekjur sveitarfélagsins en áfram verður lögð áhersla á að byggja hér fjölskylduvænt samfélag. 

 

 Þó verður ekki hjá því komist að horfa með raunsæi til framtíðar miðað við stöðu efnahagsmála í dag.  Ljóst má vera að samdráttur í tekjum og aukinn rekstrarkostnaður veldur samdrætti hjá sveitarfélaginu upp á 45 milljónir króna milli áranna 2008 og 2009 og verður erfitt að brúa það bil.  Til að setja þá tölu í samhengi við rekstur sveitarfélagsins má benda á að heildar þjónustutekjur árið 2007 námu tæpum 39 milljónum króna.   Ekki verður það brúað með nýjum lántökum því sveitarfélagið getur ekki tekið á sig meiri greiðslubyrði en þegar er orðin. 

 

En jafnvel þó ákveðið væri af sveitarstjórn að sýna djörfung og taka lán til að mæta fjáhagsvandanum og jafnvel nýta til framkvæmda, þá er ekkert lánsfjármagn til staðar og ekki fyrirsjáanlegt að það breytist næsta árið eða árin.  Og þá má leiða líkum að því að þar sem eftirspurn eftir lánsfé verður margfalt á við framboðið þá muni það endurspeglast í hærri ávöxtunarkröfu sem þýðir hærri vexti.  

 

Hægt væri að auka tekjur sveitarsjóðs með hækkun þjónustugjalda en slík hækkun hefur í för með sér auknar álögur á íbúana sem þegar þurfa að axla hærra vöruverð, aukinn tekjuskatt, aukna greiðslubyrði af lánum og hærri álögur frá hendi ríkisins.  Hætt yrði við því að sú tekjuaukning, sem vonast væri eftir að skilaði sér til sveitarfélagsins með hærri álögum, yrði rýr þar sem fólk myndi einfaldlega spara við sig kaup á þjónustunni.  Þannig gæti fækkað nemendum í Tónskólanum sem og Skólaskjólinu og færri foreldrar gætu sér séð fært að greiða fyrir heita skólamáltíð.  Allt saman slæmar afleiðingar sem við viljum án efa flest öll komast hjá.

 

Það sama á við um öryrkja- og ellilífeyrisþega sem munu verða fyrir tekjuskerðingu vegna mikils taps lífeyrissjóðanna.  Mikilvægt er að standa vörð um hagsmuni þeirra og tryggja að þeir geti stundað félagsstarf áfram með óbreyttu sniði.  En, eins og fyrr greindi, á sveitarstjórn eftir að taka ákvörðun um til hvaða aðgerða verður gripið þó búið sé að samþykkja að gæta ítrasta aðhalds. 

 

Ljóst má vera að fyrirhugaðar framkvæmdir í sveitarfélaginu frestast tímabundið þar sem ekki er hægt að fá lánsfjármagn til að standa straum af kostnaði.  Á það jafnt við um verkefni á vegum ríkisins sem og verkefni sem sveitarfélagið hefur hug á að hrinda í framkvæmd.  Breytist staðan á lánsfjármörkuðum, að ég tali nú ekki um fjárhagsstöðu sveitarfélaga og ríkis, geta þau ráðist í fyrirhuguð verkefni sem verið er að slá á frest.  En eins og sakir standa fer illa saman tekjusamdráttur, skortur á lánsfjármagni, óbreytt þjónustustig og fjárfrekar framkvæmdir.  Það dæmi gengur einfaldlega ekki upp.

 

En þó að gripið verði til aðhalds og verkefnum forgangsraðað þá er þar með ekki sagt að leggja eigi niður þá starfsemi sem ekki telst til grunnþjónustu.   Hægt er t.d. að halda "Hamingjudaga" en sníða sér stakk eftir vexti og reyna að koma niður kostnaði með aukinni sjálfboðavinnu og enn fleiri heimatilbúnum skemmtiatriðum.   Gæti það jafnvel haft þau áhrif að annars afar blómlegt menningarlíf hér á Ströndum yrði enn líflegra og fjölbreyttara og gæfi af sér nýja skemmtikrafta. 

 

Þá er stjórn sveitarfélagsins jákvæð og opin fyrir verkefnum sem geta leitt til nýrra starfa og atvinnuuppbyggingar á svæðinu.  Má þar nefna hugsanlega uppbyggingu á sjóstangaveiði hér á Ströndum í samvinnu við áhugafólk og ferðaþjóna á svæðinu.  Þá var nýlega fundað með sveitarstjóra Dalabyggðar og framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða til að fjalla um hugsanlega samvinnu sveitarfélaganna við atvinnuuppbyggingu með tilkomu Arnkötludalsvegar.  Er einnig fyrirhugað að halda slíkan fund með stjórnendum Reykhólahrepps.  Það á því ekki að sitja með hendur í skauti heldur nýta sér þá möguleika sem til staðar eru og þurfa ekki að kosta svo mikið í beinhörðum peningum.

 

Að endingu vil ég ítreka að eftir á að fjalla um fjárhagsáætlun hjá sveitarstjórn Strandabyggðar en stefnt er að því að ljúka afgreiðslu áætlunarinnar í janúar 2009.  Það sem fram kemur í þessari grein eru mínar eigin hugrenningar um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og hvernig sé hægt að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi og endurspeglar ekki skoðanir sveitarstjórnar. 

 

 

Ásdís Leifsdóttir

sveitarstjóri Strandabyggðar

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón