A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Breytingar á flokkun og sorphirðu - Spurningakönnun -UPPFÆRT

Bára Örk Melsted | 04. mars 2024

Kæru Íbúar í Strandabyggð,

Við viljum byrja á að þakka ykkur fyrir hversu vel það hefur verið flokkað hér á okkar svæði, en gegnum árin hefur flokkun og umgengni í kringum flokkunargáma og stöð verið til fyrirmyndar. Það má hins vegar alltaf gera betur og viljum við benda á að passa sérstaklega vel að batterí, rafhlöður og spilliefni fari ekki með í pappa og plastgáma. Plastið og pappinn hjá okkur eru þjöppuð í sérstakri pressu og getur skapast veruleg hætta á sprengingu ef aðskotahlutir eins og rafhlöður og önnur spilliefni eru þar með. Við bendum á að auðvitað er tekið við spilliefnum og rafhlöðum á söfnunarstöð. Við minnum einnig á að einungis eiga að fara umbúðir í plast og pappagámana og passa þarf að ekki séu önnur efni með þeim. Þá er einnig velkomið að hafa samband við okkur á sorpsamlag@holmavik.is ef einhver vafi er um hvernig á að flokka en leiðbeiningar eru einnig aðgengilegar hér ásamt öðrum upplýsingum um sorphirðu t.d. sorphirðudagatal.


Nýjungar í tækjabúnaði
Það gleður okkur að segja frá þeim nýjungum í tækjabúnaði sem Sorpsamlagið hefur tekið til notkunar þar má nefna stóra pressu þar sem að við pressum pappa og plast sem skilar sér í að við getum flutt fimmfalt meira magn í hverri ferð til Reykjavíkur en við gátum áður, í því felst mikil hagræðing og tekjuaukning fyrir hverja ferð. Þá höfum við einnig verið með til prufu jarðgerðarvél fyrir heimili og hefur hún reynst mjög vel og munum við kynna hana vel á vefnum strandabyggd.is.


Ný lög um hringrásarhagkerfi
Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að ný lög um hringrásarhagkerfi tóku gildi í byrjum 2023 og meðfylgjandi breytingar á flokkun hafa verið mikið til umræðu. Helsta breytingin er að farið verður að safna lífrænum úrgangi til jarðgerðar. Þá eru einnig breytingar á hvaðan má safna heimilisúrgangi, í þéttbýli skal úrgangi safnað innan viðkomandi lóðar. Það hefur á flestum stöðum t.d. á höfuðborgarsvæðinu verið útfært með því að fjórar tunnur séu við hvert heimili. Þá eru einnig aðrar útfærslur mögulegar þar sem einnig er leyfilegt að safna saman úrgangi frá samliggjandi lóðum. Í dreifbýli er heimilt að setja upp sorpílát í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili og til lögaðila.


Við stöndum nú frammi fyrir því að ákveða hvaða leið verður farin í söfnun úrgangs í þéttbýli í Strandabyggð það er innan Hólmavíkur. Það eru tvær mögulegar útfærslur á þessu sem henta okkur, annars vegar að settar verði 4 tunnur við hvert heimili (fyrir almennt heimilissorp, pappír, plast og matarleifar) eða hins vegar að settar verði upp svokallaðar botnlangastöðvar þar sem úrgangi er safnað frá samliggjandi stöðum samkvæmt heimild í lögum nr 803/2023 um meðhöndlun úrgangs. Þessar botnlangastöðvar verða misstórar og á þó nokkrum stöðum í þorpinu, aldrei ætti að vera lengra en 100-200 m frá hverju húsi í næstu botnlangastöð. Söfnunarstöðin verður áfram út á Skeiði fyrir flokka sem verða ekki safnað í á botnlangastöðvum. Stefnt er að móttöku fyrir timbur, járn og fl. á lokuðu svæði á Skeiði. Á myndini hér fyrir ofan má sjá dæmi um hvernig mögulegt útlit gæti verið þó það sé breytingum háð.

 

Þá erum við einnig að skoða mismunandi leiðir til að safna lífrænum matar afgöngum. Þar eru nokkrir möguleikar t.d. Reenecle heimajarðgerðarvél sem er tæki sem minkar umfang lífræns úrgangs um 90% á innan við sólarhring, Bocashi tunna sem síar vatn frá matarleyfunum og notast við örverur til að brjóta niður lífræna efnið hraðar en ellar. Ormamolta notast við sérstaka orma sem borða matarleifarnar og skila frá sér hágæða moltu. Síðast en ekki síst er klassísk moltutunna utandyra þar sem lífrænum úrgangi er safnað saman í stórri tunnu og er lengi að brotna niður án þess að notast við sérstakar leiðir til að hraða ferlinu. 

Þetta eru stórar breytingar og gerum við okkur grein fyrir því að með innleiðingu þessara nýju laga mun kostnaður við söfnun úrgangs verða meiri en hann hefur verið hingað til. Við munum því leggja okkur fram við að halda í hagkvæmni og að skapa meiri verðmæti úr því úrgangi sem safnað er sem skilar sér á endanum til íbúa í lægri gjöldum. Við viljum því taka þessa ákvörðum með lýðræði að leiðarljósi og í samráði við íbúa. Því biðjum við ykkur að svara spurningakönnun um hvaða kostur þér hugnast betur. Spurningakönnunina má nálgast hér. Könnunin opin til 14. mars. Nóg er að senda einungis eitt svar fyrir hvert heimili.

UPPFÆRT-Samkvæmt lögum er okkur skylt að breyta sorphirðu innan þéttbýlis og leiðin er að safna í 4 tunnur á hverri lóð eða á samliggjandi lóðum þ.e. botnlangastöðvar. Þessi lög ná ekki yfir dreifbýlið, en lagabreyting er í vinnslu. 


Þegar niðurstöður könnuninar liggja fyrir og ákvörðun verður tekin um hvaða leið verður farin munum við kynna nýja fyrirkomulagið vel m.a. á íbúafundi.

Grenndargámar
Grenndargámar verða áfram á Skeiði við húsnæði Sorpsamlags Strandasýslu og þar verður móttaka fyrir eftirfarandi:

  • Pappi
  • Plast
  • Gler umbúðir
  • Málm umbúðir
  • Raftæki
  • Garðaúrgang
  • Timbur
  • Járn
  • Grófan úrgang, byggingarefni
  • Spilliefni

Aðrir grenndargámar á vegum Sorpsamlags Strandasýslu eru í Bitrufirði, Drangsnesi, Bjarnafirði, Norðurfirði, og Djúpuvík. En ekki er tekið við öllum flokkum á þeim stöðum.

 

ENGLISH
Dear inhabitants of Strandabyggð. We are now facing some changes regarding waste management. The full English version of the details of these changes is available here. Please have a look and take some time to answer the online survey about your preferences regarding waste collection.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón