Dagatal leikskóla 2022-2023
Leikskóladagatal 2023-2024 er hér.
Leikskóladagatal 2022-2023 er hér.
Leikskóladagatal 2021-2022 er hér.
Unnið er að uppfærslu
Starfsárið
Starfsár leikskólans hefst að sumarfríi loknu og því lýkur við upphaf næstu sumarlokunar. Leikskólinn er lokaður í sex vikur á sumrin. Lokað er seint í júlí og og er skólinn lokaður fram yfir verslunarmannahelgi í ágúst.
Fari barn í lengra sumarfrí en sumarlokun leikskólans varir þarf samt sem áður að greiða fyrir dvalarplássið. Að öðrum kosti þarf að segja upp plássinu og sækja um það aftur. Fer þá umsóknin aftast á biðlista sé hann fyrir hendi.
Skipulagsdagar
Sex skipulagsdagar eru á hverju starfsári. Einn skipulagsdagur er nýttur annað hvert ár til að fara á haustþing leikskólakennara á Norðurlandi vestra, en leikskólinn Lækjarbrekka tilheyrir 5. svæðisdeild leikskólakennara. Aðrir skipulagsdagar eru ýmist nýttir til námskeiða, leikskólaheimsókna, námsferða eða ýmiss konar undirbúningsvinnu. Skipulagsdagar eru auglýstir á leikskóladagatali. Ef einhverjar breytingar verða þarf að auglýsa þá með þriggja vikna fyrirvara. Skipulagsdagar vetrarins eru:
19. ágúst
17. september
3. janúar
16. mars
2. maí
Dagskrá skipulagsdaga að hausti - skipulagsdagar kennara
Skóladagatal leikskólans er gert af leikskólastjóra og leggur hann það fyrir fræðslunefnd og fulltrúa foreldra. Á skóladagatalið fara allir skipulagsdagar, þemadagar og öðruvísidagar auk sumarlokunar.
Starfsmannafundir
Á mánaðarfresti eru haldnir starfsmannafundir í leikskólanum.Starfsmannafundir eru fyrsta þriðjudag í mánuði frá kl.16 - 18. Skóladagatal leikskólans er sýnilegt á upplýsingartöflu starfsmanna og eru starfsmannafundir merktir þar inná fyrir allt árið.
Teymisvinna - faglegt starf kennara - fastir fundir og viðfangsefni
Fastir fundir eru með foreldrum barna sem þurfa stuðning og eru þá haldnir fundir með foreldrum, sérfræðingum, sérkennara, leikskólastjóra og félagsmálastjóra. Grænfáninn hefur eigið teymi og er stefnan að hittast á tveggja mánaða fresti.
Uppbrotsdagar
Dagar með lita þema, rugludagar og þessháttar eru annað slagið yfir starfsárið og taka þá allir nemendur og starfsmenn þátt.
Skertir dagar
Ef um skerta daga er að ræða er lokað hálfan dag eða dagpart. Skertir dagar eru í upphafi og við lok hvers skólaárs. Einnig getur komið til skertra daga í tengslum við skipulagsdaga eða starfsfólk þarf að fara um langan veg til að sækja sér fræðslu sem nýtist þeim í starfi.
Jól og áramót
Leikskólinn er lokaður alla helgidaga. Auk þess er hann lokaður bæði aðfangadag og gamlársdag. Leikskólinn lokar kl 12:00 á Þorláksmessu þann 23. desember.
Í kringum jól og áramót snýst leikskólastarfið að nokkru leiti um aðventuna og þær hefðir og siði sem fylgja jólahaldi. Í desembermánuði eru jólalögin sungin, jólasögur lesnar og föndrað fyrir jólin.
Margar hefðir hafa skapast í leikskólanum í kringum jólin sem við höldum í heiðri, en þær eru:
-
Piparkökubakstur og skreyting. Öll börnin koma að piparkökubakstri og skreyta svo nokkrar piparkökur sem þau taka heim með sér.
-
Bíódagur. Þennan dag fá börnin að horfa saman á einhverja jólamynd og gæða sér á poppi/snakki og djús.
-
Kaffihúsaferð. Þennan dag fara börn, foreldrar og starfsfólk saman á Cafe Riis þar sem þau gæða sér á kakó og piparkökum í boði eigenda staðarins.
-
Jólaball. Þegar jólaballið er haldið koma allir prúðbúnir í leikskólann. Dansað er í kringum jólatréð við hljóðfæraleik og ef vel gengur að syngja koma rauðklæddir herramenn í heimsókn með gjafapoka. Þegar dansinum er lokið fáum við jólamat að borða.
Jólaföndur/jólaverkstæði
Fyrir jólin er hefðbundið leikskólastarf brotið upp og unnið er að margskonar jólaundirbúningi. Foreldrum og systkinum er boðið að koma í leikskólann og taka þátt í jólaverkstæði, þar sem börn, fullorðnir og leikskólastarfsfólk föndrar og nýtur stundarinnar saman undir lágum tónum jólatónlistar. Þarna gefst foreldrum kostur á að föndra og taka þátt í jólaundirbúningi barna sinna og skapa með þeim skemmtilegar minningar.
Þorrablót
Á Bóndadegi höldum við þorrablót. Áður en þessi dagur rennur upp eru börnin búin að skreyta víkingahjálma sem þau setja upp áður en borðhald hefst. Í Dvergakoti er sett upp langborð og stúlkurnar þjóna til borðs. Á borðum er hefðbundinn þorramatur og er íslensk matarhefð höfð í hávegum þennan dag.
Dagur leikskólans
Dagur leikskólans hefur verið haldin hátíðlegur í febrúar undanfarin ár. Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneytis og landssamtaka foreldra; Heimili og skóli. Á degi leikskólans er foreldrum boðið að snæða morgunnverð með börnum sínum í leikskólanum og fylgja þeim eftir í leik og starfi. Dagur leikskólans miðar að því að opna og kynna starfsemi leikskólanna fyrir almenningi og því kjörið að nota þennan dag til að bjóða foreldrum sérstaklega inn í leikskólann.
Bolludagur, sprengidagur og öskudagur
-
Bollur eru þema bolludags og eru borðaðar fiski- eða kjötbollur í hádeginu. Einnig er boðið upp á rjómabollur.
-
Á sprengidegi fáum við saltkjöt og baunir og reynum að sjálfsögðu að sprengja okkur þann daginn.
-
Á öskudegi geta börnin ýmist komið í náttfötum eða grímubúningum. Við höldum ball og sláum köttinn úr tunnunni. Í tunnunni er góðgæti í boði leikskólans.
Konudagur
-
-
Við höldum upp á konudaginn á föstudegi fyrir konudag. Fyrir þann dag föndrum við eitthvað sniðugt. Í Dvergakoti er sett upp langborð og þjóna drengirnir til borðs.
Páskar
Leikskólinn er lokaður alla helgidaga.
Sveitaferð
Að vori til fara öll börn leikskólans í sveitaferð. Skólabíllinn keyrir okkur fram og til baka. Markmið ferðarinnar er að börnin fái að sjá dýrin í sveitinni og fái tækifæri til að upplifa sauðburðinn.
Listasýning
Árlega setjum við upp veglega listasýningu í íþróttahúsinu. Hún er sett upp við útskrift 5 ára barna og stendur fram á haustið. Sýningin er framlag leikskólans til bæjarhátíðarinnar, Hamingjudaga.
Grilldagur
Grilldagurinn er hátíðisdagur á Lækjarbrekku, þá er vinnu vetrarins fagnað með góðri skemmtun. Öllum foreldrum og systkinum er boðið að koma og taka þátt í grilldeginum. Á grilldeginum syngja allir saman bæði stórir og smáir og leikskólabörnin kenna þeim fullorðnu nokkur ný lög sem þau hafa æft yfir veturinn. Starfsfólk leikskólans setur upp leikrit byggt á sögu sem börnin þekkja (t.d. Geiturnar þrjár eða Grísirnir þrír) og hefur sá gjörningur vakið mikla lukku jafnt hjá börnum sem fullorðnum. Sápukúlur eru blásnar, krítað á stéttina og farið í almenna leiki. Svo er boðið upp á grillaða hamborgara og köku í eftirrétt. Grilldagurinn er samstarfsverkefni starfsmanna leikskólans, cafe Riis og foreldrafélagsins.
Útskrift og opnun listasýningar
Að útskrifast úr leikskóla er stór áfangi í lífi barns, foreldra þess, fjölskyldu og starfsfólks leikskóla. Útskrift elsta árgangs leikskólans fer fram í lok maí ár hvert. Við það tilefni hefur nú undanfarin ár verið opnuð listasýning í íþróttamiðstöð Hólmavíkur.
Öllum er boðið að vera viðstaddir útskriftina sem fer fram í húsnæði leikskólans. Börnin fá viðurkenningaskjal, smá glaðning og litla plöntu sem þau geta gróðursett og fylgst með vaxa og dafna á sama tíma og börnin sjálf vaxa og dafna.
Þá er rétt að geta þess að gullkorn og listaverk eftir öll leikskólabörnin hanga til sýnis á sýningunni, sem stendur fram á haust.
Afa- og ömmukaffi
Eins og orðið ber með sér þá eru ömmur og afar sérstaklega boðin velkomin að þyggja og njóta samvista með barnabörnum sínum á leikskólanum. Ömmur og afar eru oft á tíðum stór partur af lífi barnsins og börnin hafa sérstaklega gaman af því að bjóða ömmum og öfum að koma og sýna þeim leikskólans sinn. Auk ömmu og afa er eldri borgurum Strandabyggðar boðið að koma og kíkja í kaffi og sjá hvað er um að vera í leikskólanum. Þarna er komin ákveðin leið fyrir börnin til að læra af eldra fólkinu og eldra fólkið hefur gaman af því að umgangst börnin og fylgja þeim eftir í leik og starfi. Hafi börnin ekki tök á að bjóða afa og ömmu í kaffi geta aðrir gestir komið t.d. mamma og pabbi.
Sólblómaleikskóli og Vanessuhátíð
Vanessa er styrktarbarn leikskólans Lækjarbrekku, Vanessa býr í SOS barnaþorpi í Zimbabwe. Einu sinni á ári er haldin Vanessuhátíð henni til heiðurs, þá er opið hús og foreldrum boðið að versla alls konar varning sem börn og starfsfólk hafa útbúið fyrir hátíðina. Ágóði sölunnar ásamt peningum sem safnast í sparibauka (í andyri leikskólans) fara í árgjald fyrir Vanessu. Afmælis- og jólagjöf er svo send ásamt lítilli peningaupphæð sem fer inn á reikning sem Vanessa á. Þann pening fær hún svo afhentan þegar tími kemur á flutning hennar úr barnaþorpinu. Á eldri deild leikskólans er farið yfir hvar Zimbabwe er í heiminum, hvar þorpið er sem Vanessa býr , dýr sem finnast þar, menningu og matargerð. Leikskólinn Lækjarbrekka er Sólblómaleikskóli en það er leikskóli sem styrkir ákveðið barn í SOS Barnaþorpi eða styrkir samtökin.
Öðruvísi dagar
Öðruvísi dagar dreifast yfir árið og er þá valið eitthvert þema sem unnið er út frá s.s. einhver litur til að klæðast eða hlutur sem má taka með sér í leikskólann.
Einnig fylgjumst við með bæði alþjóðlegum og íslenskum þemadögum og vinnum með það umfjöllunarefni sem þeir bjóða upp á. Má þá nefna t.d. dag íslenskrar tungu, dag vatnsins og dag ímyndunaraflsins.
Í vinnslu ágúst 2021