A A A

Valmynd

Vikan 2.-6. desember

Kolbrún Ţorsteinsdóttir | 06. desember 2013

Kæru foreldrar

Á mánudaginn vorum við öll í vetrarfríi. Á þriðjudaginn var stærðfræði og við unnum í sprota. 1. bekkur í samlagningu og 2.bekkur í samlagningu og frádrætti. Nú fram að jólafríi ætlum við að hvíla Sprota efnið og í staðinn vinnum við í jólastærðfræði. Við erum byrjuð að gera jólakort og markmiðið er að hver og einn geti að minnsta kosti gert kort fyrir alla í bekknum. Við máluðum líka snjókalla og skreyttum þá. Snjókallarnir voru málaðir með lími og raksápu og þá urðu þeir svona mjúkir og upphleyptir. Við hengdum þá svo upp á ganginum fyrir alla að sjá. Í tjáningu völdum við lag til að syngja á mánudaginn næsta en þá verða ljósin tendruð á jólatré fyrir utan skólann við hátíðlega athöfn. Við ætlum að syngja Jólasveinar einn og átta og var það lag valið með lýðræðislegri kosningu. Á miðvikudaginn komu allir saman á söngsal og það voru sungin þrjú jólalög við undirleik. Við ætlum að gera það tvisvar í viku fram að jólum. Við fórum bæði í hringekju í íslensku og stærðfræðihringekju og í samfélagsfræði vorum við að læra um hvernig jörðin er, flekamót og eldgos. Við lærðum einnig um fánann okkar, hvernig við getum lýst honum og hvað litirnir í honum tákna. Við lýsum honum þannig: Það er rauður kross á hvítum krossi á bláum feldi. Í náttúrufræði lásum við ljóðið Líf sem fjallar um nýfætt folald og börnin annað hvort skrifuðu upp ljóðið og teiknuðu mynd eða gerðu teiknimyndasögu um það. Við gerðum einnig fleiri sögur um dýraungviði þar sem fyrirfram ákveðin orð voru gefin til að nota.  Á fimmtudaginn fór 2. bekkur á bókasafnið og vann dulmálsverkefni hjá Svani bókaverði og þau völdu einnig jólabækur fyrir leshornið okkar. Á bekkjarfundi kynnti ég fyrir bekknum áform okkur um að sameina 1.-4. bekk og ég reyndi að útskýra vel fyrir þeim hvernig við ætlum að vinna þetta og þeim leist bara vel á. Í næstu viku verðum mikið uppbrot og við förum að æfa að fullum krafti fyrir litlu jólin, gera jólakort og vinna í jólabókinni okkar. Það verður örugglega mjög gaman.

Bestu kveðjur og góða helgi

Kolla :)

Vikan 25.-29. nóvember

Kolbrún Ţorsteinsdóttir | 28. nóvember 2013

Kæru foreldrar

Í þessari viku var fyrsti bekkur að læra stafinn Vv og þau teiknuðu V úr vír á vorgrænan pappír. Þau fengu gest fyrstu tvo tímana en það var hún Jóna Karítas (systurdóttir mín) sem býr á Sauðárkróki. Allir unnu í Lestrarlandinu. Ég las ævintýrið Dalli dvergur og Frikki fíll og börnin teiknuðu mynd. Við byrjuðum einnig í Byrjendalæsi en það er ein aðferð við lestrarkennslu sem verður eina kennslustund í viku. Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð sem beinist fyrst og fremst að kennslu læsis í 1.og 2. bekk. Þar fer fram vinna með talmál, hlustun, lestur og ritun. Við byrjum á að vinna með bókina Iðnir krakkar eftir Sigrúnu Eldjárn. Unnið verður með þá bók í 8 vikur. Í stærðfræði eru fyrstu bekkingar að byrja að leggja saman og nemendur í öðrum bekk eru í samlagningu og frádrætti. Á miðvikudag var hringekja í íslensku og í dag var hringekja í stærðfræði. Nemendur voru mjög ánægðir með stærðfræðihringekjuna og Hrafnhildur Þorsteins hjálpaði okkur með Numicon kubbana. Í tjáningu erum við að tala um tilfinningar og læra fullt af orðum yfir þær. Við ræddum um hvað væri notalegt og prufuðum andlitspenslun, höfuðnudd og axlanudd. Þetta var allt mjög notalegt. Við tengdum líka tónlist við tilfinningar og ýmist dönsuðum eða teiknuðum eftir áhuga og kjarki hvers og eins. Í samfélagsfræði erum við að byrja að kynnast honum Kára sem er að fara að leggja af stað í langferð með flugi. Hann flaug yfir landið og við kynntumst orðum eins og hálendi, láglendi, þéttbýli, dreifbýli og náttúru. Svo var skrifuð tröllasaga í sögubókina. Allir eru spenntir að fræðast um eldgos í næstu viku. Í náttúrufræði lásum við kafla sem heitir: Ef  þú giftist mér og er hann um pörun dýra. Við fórum í leik sem heitir Örkin hans Nóa,  þar sem börnin léku dýr og þau þurftu að para sig saman með látbragðsleik. Þau vildu fara í hann aftur og aftur og fá að prufa mismunandi dýr. Við enduðum daginn í dag á að horfa á fræðslumynd um hvernig skógardýr vaxa. Við ætluðum að horfa á hvernig húsdýrin vaxa en hún var eitthvað biluð hjá Námsgagnastofnun.

Bestu kveðjur og hafið það sem best í vetrarfríinu,

Kolla :)

Vikan 18.-22. nóvember.

Kolbrún Ţorsteinsdóttir | 22. nóvember 2013

Kæru foreldrar

Nú er haustönn lokið og miðönn tekin við. Haustönn lauk með nemendaviðtölum þar sem börnin litu til baka og mátu virkni sína, vinnubrögð og hegðun. Nú höldum við áfram og í sumum fögum hafa orðið breytingar. Við erum byrjuð á nýju efni í samfélagsfræði sem heitir Komdu og skoðaðu land og þjóð. Þar segir frá ferðalagi Kára um landið um leið og hugtök og náttúrufyrirbæri eru skýrð á lifandi og skemmtilegan hátt. Við erum einnig byrjuð að vinna með nýtt efni í náttúrufræði sem heitir Komdu og skoðaðu hvað dýrin  gera. Í því er fjallað um atferli dýra, svo sem leiki, uppeldi, pörun, félagshegðun, og næringarnám. Í vikunni byrjuðum við líka með nýtt efni í tjáningu og það er lífsleikniefnið Spor 2.  Helstu markmið efnisins eru að efla tilfinningaþroska og samskiptahæfni nemenda. Viðfangsefni kennslustunda eru mjög fjölbreytt og taka mið af kenningu um fjölgreindir.  Fyrsti bekkur lærði stafinn Ee og krakkar úr 10. bekk komu og lásu fyrir þau. Annar bekkur fór í bókasafnsfræðuslu á fimmtudaginn og við enduðum vikuna á að horfa á fræðslumynd í samfélagsfræði og ræddum svo um hana á bekkjarfundi. Myndin heitir Vegurinn heim og er hjartnæm íslensk heimildarmynd byggð á viðtölum við fimm börn innflytjenda á Íslandi. Í henni ræða börnin líf sitt og tilveru hér á landi og lýsa upplifun sinni af því að vera á mörkum ólíkra menningarheima. Ég var í námslotu frá þriðjudegi til fimmtudags og nemendur sögðust hafa verið mjög duglegir að læra á meðan ég var fjarverandi og ég trú því vel :)
Góða helgi og bestu kveðjur
Kolla :)

Vikan 28.okt-1.nóv

Kolbrún Ţorsteinsdóttir | 01. nóvember 2013

Kæru foreldrar

Í Þessari viku voru samspilsdagar og það voru kórar og hljómsveitir að fara út úr tímum svo við aðlöguðum okkur svolítið að því. Fyrsti bekkur fór ásamt fjórða bekk í læknisskoðun á mánudaginn. Ég setti miðana um hæð og þyngd í pennaveskin og vona að þeir hafi skilað sér. Fyrsti bekkur lærði líka stafinn Úú, vann í Lestralandinu og Eyrún og Branddís úr 10. bekk komu og lásu fyrir þau sögu. Ég spurði þau hvort þeim hlakkaði ekki til að verða svona dugleg að lesa svo þau gætu lesið svona vel fyrir aðra nemendur þegar þau yrðu eldri og jú þau voru viss um að þau gætu það örugglega á næsta ári. Fyrsti bekkur er líka byrjaður í Sprota 1b og það gengur mjög vel. Þau fóru líka yfir í 10. bekkjarstofuna og gerðu smá könnun þar úr Kátt er í Kynjadal stærðfræðiefninu.  Annar bekkur hefur unnið í Lestralandinu og í stærðfræði hafa þau unnið með tölfræði og gerðu verkefni tengt því. Í íslensku gerðum við líka söguorm, skrifuðum í skriftabók, spiluðum Alías  og lásum í heimalestrabók mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Fyrsti bekkur átti að fara í bókasafnsfræðslu en hún féll niður þar sem bókavörður var í leyfi. Við fórum að venju í hringekju og val og í tjáningu vorum við að leika sagnorð og nafnorð, fórum í hengimann og svo vorum við með hugmyndavinnu fyrir grænfánablað sem á að gefa út. Í náttúru- og samfélagsfræði höfum við verið að vinna verkefni um plöntur og dýr og í dag byrjuðum við að læra um nánasta umhverfið, hús, götur, loftmyndir og kort. Á bekkjarfundi ræddum við og settum niður fyrir okkur hvert sé hlutverk kennara og hvert sé hlutverk nemenda. Í gær 31. október átti Emma Ýr afmæli og við sungum fyrir hana afmælissönginn :)
Bestu kveðjur og góða helgi
Kolla

Vikan14.-18. október

Kolbrún Ţorsteinsdóttir | 18. október 2013

Kæru foreldrar

Þessi vika hefur gengið ljómandi vel. Nýja stofan okkar hentar vel og nemendur hafa verið vinnusamir. Það gengur vel hjá 1. bekk í lestri og allir svo duglegir að lesa. Við höfum verið dugleg að vinna í lestralandinu sem er vinnubók í íslensku og Sprota sem er stærðfræðibókin okkar.  Við unnum verkefni í vikunni sem fjallaði um það í hverju við erum góð og hangir það verkefni uppi við stofuna okkar. Þetta verkefni er til að efla sjálfsmynd okkar. Við fórum í heimsókn á Sauðfjársetrið og þar kynnti hún Dagrún Jónsdóttir fyrir okkur sýninguna  Álagablettir. Þetta var stórskemmtilegt og Dagrún sagði okkur margar sögur um álagabletti og útskýrði vel fyrir okkur hvað álagablettur er.  Í samfélags- og náttúrufræði  fórum við út að skoða steina, bæði náttúrulega og manngerða, lásum þjóðsöguna Óskasteinn í Tindastóli og unnum verkefni um ljóstillífun. Nú eru allir nemendur í 1. og 2. bekk með það á hreinu hvað ljóstillífun er!  Í dag voru svo umræður um náttúruna, hvað hún gefur okkar og hvernig við umgöngumst hana af virðingu. Á fimmtudaginn byrjaði  1. bekkur í bókasafnsfræðslu og 2. bekkur bíður spenntur eftir að komast næsta fimmtudag.  Á bekkjarfundi unnum við verkefni þar sem tveir unnu saman. Þetta var vináttuviðtal þar sem nemendur tóku viðtal hvert við annað um hvort þau ættu vin, hvað þau gerðu fyrir vin sinn, hvort það kæmi upp ósætti og hvernig það væri þá leyst o.s.frv. Þetta var svolítið erfitt verkefni en ég held að þau hafi haft mjög gott af því að velta þessum hlutum fyrir sér.

Tíminn líður hratt og nú er komið að því að ég fari aftur í námslotu í næstu viku. Það verður eins og áður frá þriðjudegi til fimmtudags og börnin í höndum sömu kennara og kenndu þeim þegar ég var síðast í lotu. Ég hvet alla foreldra til að styðja börnin sín vel í heimalestrinum því eins og ég segi við börnin: „Æfingin skapar meistarann!!“

Bestu kveðjur og góða helgi

Kolla

Síđustu tvćr vikur

Kolbrún Ţorsteinsdóttir | 11. október 2013

Kæru foreldrar

Ég ætla aðeins að fara yfir síðustu tvær vikur.

Mánudaginn 30. 9. var lokahátíð göngum í skólann verkefnisins. Þá var börnunum skipt í hópa þvert á bekki og farið út í ratleik. Eftir ratleikinn var ávaxta- og grænmetishlaðborð. Á þriðjudeginum lærðum við að búa til hugarkort og það gekk mjög vel. Á miðvikudeginum var hringekja sem innihélt, lestur, tölvu, sóknarskrift og spil.  Í samfélagsfræði var útitími og þá skoðuðum við form allt í kringum okkur. Í tjáningu léku börnin leikrit. Þeim var skipt í þrjá hópa og einn hópurinn var með Svörtu kisu, annar Bláu könnuna og sá þriðji með Græna hattinn. Þau útfærðu þetta alveg sjálf og voru stórkostleg öllsömul. Ég sat og horfði á með gæsahúð. Á fimmtudeginum bjuggum við svo til hugarkort um veðurtákn. Svo fóru nemendur heim í langt helgarfrí og þriðjudagsmorgun skiptum við um stofu. Það er mun rýmra á okkur núna og ég er að minnsta kosti mjög ánægð með skiptin.  Þegar ég spyr svo nemendur eru skiptar skoðanir á því hvort stofan sé betri. Á miðvikudaginn var aftur hringekja og í henni var lestur, lestralandið, skrift og spil. Í vali völdum við á milli LEGÓ og að lita. 1. bekkur fór í skimun til Hrafnhildar en hún á eftir að fá þau tvisvar sinnum til viðbótar til að klára. Skimun þessi heitir Leið til læsis og er hópfyrirlögn. Með henni er verið að kanna málþroska, bókstafi og hljóð og hljóðkerfisvitund. Á meðan gerði ég stafsetningarkönnun á 2. bekk. Í tjáningu lærðum við nýja stafrófsvísu eftir Þórarinn Eldjárn og skrifuðum hana í sögubókina og skreyttum. Við sungum hana hressilega líka. Í stærðfræði í gær unnum við í Sprota og sumir prófuðu að leysa verkefni í paravinnu. Við ætluðum að fara út að skoða og flokka steina í gær en frestuðum því vegna veðurs. Í staðinn las ég fyrir þau þjóðsöguna Óskasteinn í Tindastól og þau myndskreyttu hana.  Í dag komu nemendur með steina heiman frá sér til að segja frá og sína og þau stóðu sig mjög vel í því. Bæði að segja frá og að hlusta á hina. Á bekkjarfundi ræddum við um kurteisi og vinnusemi.

Ég sendi heim smá heimanám í stærðfræði fyrir 2. bekk og langar að biðja ykkur að huga vel að heimalestri barnanna. Hann er svo ákaflega mikilvægur. Ykkar stuðningur skiptir öllu máli. Ég hef verið að reyna láta þau lesa hjá mér 4 sinnum í viku en það tekst ekki alltaf........sumir dagar eru bara þannig......

Bestu kveðjur og góða helgi

Kolla 

Kćru foreldrar

Kolbrún Ţorsteinsdóttir | 27. september 2013

Kæru foreldrar

Þessa viku viku var ég í námslotu frá þriðjudegi til fimmtudags en ég veit að börnin ykkar voru í góðum höndum á meðan.

Á mánudaginn lærði 1. bekkur stafinn L og þau límdu stafinn L með laufblöðum á ljós lillaðan pappír. Í tjáningu skiptum við bekknum í þrjá hópa og þau sömdu leikrit sem þau fluttu fyrir hvert annað. Stíllinn einkenndist svolítið af ærslalátum, en við erum bara að byrja og æfingin skapar meistarann ekki satt?

Á þriðjudaginn var búinn til vinarhringur úr höndum og farið vel yfir hægri og vinstri. Nemendur æfðu sig í að heilsa kurteisislega með hægri hönd. Á miðvikudag var farið bæði í hringekju og val og í tjáningu var prófað að búa til leikrit með því að nota smábarnabækurnar Græni hatturinn, Bláa kannan og Svarta kisa.

Á fimmtudag var skólatöskudagurinn og þá kom Jóhanna Hreinsdóttir inn í bekkinn og fór yfir skólatöskurnar með börnunum. Meðal annars viktaði hún töskurnar en skólataskan má ekki vera meira en 10% af líkamsþyngd barnsins. Í lok dagsins fór Anna Birna svo út með börnin og skólinn var skoðaður rækilega að utan, gluggar taldir og svo framvegis.

Föstudagsmorgun horfðum við á DVD í setustofunni. Við horfðum á myndina Hani, krummi, hundur, svín, þetta eru dýrin mín. Í næstu viku mun ég svo nota þessa mynd til að kenna þeim að búa til hugarkort. Það sem var svo skemmtilegt við þessa mynd var að það er ekki mikið talað í henni en meira verið að fylgjast með dýrunum. Þá gafst börnunum tækifæri til að spjalla saman á meðan þau voru að horfa á og þau voru að deila sín á milli bæði reynslusögum og vitneskju.

Góða helgi

Kolla 

Foreldrabréf

Kolbrún Ţorsteinsdóttir | 20. september 2013

Kæru foreldrar

Í þessari viku höfum við gengið eða hjólað í skólann og munum halda því áfram í næstu viku líka að ósk nemenda.  Á mánudaginn var líka Dagur íslenskrar náttúru og þá fór allur skólinn saman í göngutúr með Jóni Alfreðssyni og Aðalheiði Ragnarsdóttur. Það var nokkuð svalt og vindasamt en fólk lét það ekkert á sig fá. Gengið var frá skólanum og svo nýja göngustíginn meðfram fjörunni sem Seeds hópurinn lagði í sumar. Stígurinn endar svo í Vesturtúninu og svo var gengið aftur til baka. Eftir göngutúrinn ræddum við svo um hollt og óhollt nesti. Á þriðjudaginn bjuggum við til skemmtilega flettibók í íslensku þar sem 1.bekkur teiknaði og skrifaði  4 orð sem þau eru búin að læra og 2. bekkur teiknaði  4 dýr að eigin vali og skrifuðu svo inní hvað afkvæmi þeirra heita. Í lok dags skrifuðu/teiknuðu nemendur sögu og komu svo upp og sögðu hinum frá. Á miðvikudaginn fórum við í einni halarófu inn á bókasafn og tókum bók. Við unnum svo verkefni út frá bókinni sem þau völdu. Í Vali var valið á milli Einingakubba, Alías og Latador. Í samfélagsfræði ræddum við um frímínútur , hvað er hægt að gera í frímínútum og hvað lærum við í frímínútum? Svo gerðum við skoðanakönnun í bekknum um hvað þeim finnst skemmtilegast að leika.  Í lok dagsins fórum við út á sparkvöll í leiki. Á fimmtudag ræddum við um tilfinningar og ólík fjölskyldumynstur og gerðum verkefni út frá því. Á föstudag unnum við með form og rökkubba og Jóhanna Hreinsdóttir kom inn með kynningu á einhverfu. Sundtími var felldur niður og allir fóru upp í kirkju á Tónlist fyrir alla.

Að lokum vil ég láta vita að í næstu viku fer ég í námslotu frá þriðjudegi til fimmtudags.

Góða helgi

Kolla  :)

Foreldrabréf

Kolbrún Ţorsteinsdóttir | 13. september 2013

Kæru foreldrar

Ég vil byrja á því að þakka ykkur fyrir komuna á námsefniskynninguna.

Þessi vika hefur gengið ljómandi vel. Við höfum gert margt skemmtilegt og vonandi gagnlegt líka.

Í tjáningu á mánudaginn fórum við í þrjá leiki: Hver stal kökunni úr krúsinni í gær?, rímleik (ég kasta til þeirra grjónapoka og sagði orð, þau kasta til baka og ríma orðið) og að lokum fórum við í galdraleik þar sem ég er galdramaðurinn(þau vildu reyndar að ég væri galdranorn) og breyti þeim í ýmislegt sem þau þurfa að leika með látbragði.....það var mjög erfitt að mega ekki segja neitt eða gefa frá sér hljóð. Við endurtókum þessa leiki aftur á miðvikudaginn við mikla gleði.

Á þriðjudaginn vorum við m.a. að klippa út stafi og orð úr dagblöðum og tímaritum og límdum í úrklippibókina okkar. Við vorum líka læra um um höndina. Hvað getum við gert með höndunum? Viðrifjuðum upp fingravísur, hver nemandi teiknaði höndina sína í skólabókina og svo bjuggum við til fallegt veggspjald með því að stimpla hendurnar okkar á það.

Á miðvikudaginn var hringekja og í hringekju skiptumst við á að fara á fjögur svæði. Í þessari hringekju var : Lesa fyrir kennara, tölva (lestur er leikur á nams.is), sögu/minnisspil/ og skrifa eina bls. í skrift eins vel og maður getur. Í valtímanum raddlestrarprófuðu Hrafnhildur og Jóhanna nemendur í 2. bekk.  Í vali var hægt að velja á milli þriggja verkefna. Að búa til teiknimyndasögu, lita mynd og einingakubbar. Í samfélagsfræði  bjuggum við til fullt af stöfum úr tröllaleir.

Á fimmtudag var námsefniskynning og því engin hefðbundinn stærðfræðitími. En í lok dagsins vorum við að læra um hvað skólar eru mismunandi og að raunar væri enginn skóli eins. Við fengum skólaliðana, sérkennarann og aðstoðarskólastjórann til okkar í heimsókn til að segja okkur frá hvað fælist í starfi þeirra.

Í dag föstudag bjuggum við svo til ákaflega fallega bekkjarmynd sem nú prýðir skólastofuna. Á bekkjarfundi rifjuðum við upp bekkjarreglurnar okkar, eineltisreglur skólans og ræddum um hvernig væri búið að ganga. Við ræddum líka hvernig manni myndi  líða ef maður myndi óvart meiða besta vin sinn.

Góða helgi

Kolla :)

Foreldrabréf

Kolbrún Ţorsteinsdóttir | 06. september 2013

Kæru foreldrar

Þessi vika hefur verið bæði skemmtileg og áhugaverð. Við erum að kynnast hvert öðru og þau eru eins og svo margir 1. og 2. bekkingar að læra að það gengur ekki að tala alla kennslustundina ;) Við erum búin að vera að æfa okkur í að hafa þögn í smá stund og að hvísla og ég held að það komi fyrr en síðar. Þau eru misdugleg að nota kennslustundina til að vinna  og sumir bara vinna hægar en aðrir, svo nokkuð margir eru með heimanám í stærðfræði. Ég skráði það í skjatta. Við Jóhanna höfum verið að þreifa okkur áfram með lestur í lestrarbók en það er ótrúlega tímafrekt þegar margir þurfa líka aðstoð við vinnuna sína í kennslustundinni. Það má vel vera að við endurskoðum eitthvað fyrirkomulagið á því þegar fram líða stundir og þá mun ég láta ykkur vita.

Í náttúru- og samfélagsfræði höfum við verið að vinna með árstíðirnar, mánuðina og dagana. Við gerðum í sameiningu veggspjald sem er voðalega fallegt :)

Á bekkjarfundi í dag fórum við yfir hvers vegna það þarf að hafa vinnufrið í kennslustund og hvenær það er mikilvægt að hlusta vel og svo framvegis. Þessi umræða verður sjálfsagt rauður þráður næstu vikurnar. Krakkarnir bjuggu síðan til bekkjarreglur sem ég mun senda ykkur í tölvupósti og ég verð að segja að þetta eru mjög flottar reglur :)

Valdimar Kolka er 7 ára í dag og við sungum fyrir hann afmælissönginn.

Allir nemendur fengu eyðublað heim sem þið foreldrar þurfið að fylla út og skila aftur á mánudaginn. þetta er eyðublað sem gefur mér leyfi til að birta myndir af barninu ykkar hér á heimasíðunni. Eftir að hafa fengið samþykki ykkar mun ég setja inn myndir sem ég hef verið að taka.

Góða helgi

Kolla :)

Fyrri síđa
1
2345Nćsta síđa
Síđa 1 af 5
Eldri fćrslur

Bekkjavefir

Atburđadagatal

« Júlí 2014 »
S M Ţ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nćstu atburđir