A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1334 í Strandabyggð - aukafundur 23. júní 2022


Auka-sveitarstjórnarfundur nr. 1334 var haldinn fimmtudaginn 23. júní 2022 í Hnyðju, Höfðagötu 3 á Hólmavík, og hófst fundurinn kl. 13:00. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Matthías Lýðsson, Þorgeir Pálsson, Jón Sigmundsson, Sigríður Jónsdóttir, Hlíf Hrólfsdóttir og Grettir Örn Ásmundsson vegna liðar. 1 á fundinum. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat fundinn og ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:


1. Ráðning sveitarstjóra
2. Viðauki III
3. Sumarlokun skrifstofu og næsti fundur sveitarstjórnar
4. Nefndarfundir, boðun og framkvæmd
5. Skipan fulltrúa í nefndir og ráð:
    a. Kjörstjórn
    b. Fulltrúi í barnaverndarnefnd
    c. Áfallateymi Strandabyggðar
6. Skipun fulltrúa í nefndir og ráð:
    a. Fulltrúaráð Vestfjarðarstofu – varamaður
    b. Sorpsamlag Strandasýslu – 2 fulltrúar og 2 til vara
    c. Félagsþjónustu Stranda- og Reykhólahrepps – aðal og varamaður
    d. Brunavarnir Dala, Reykhóla- og Stranda, kosning varamanns
    e. Náttúrustofa Vestfjarða
f. Svæðisskipulag, Dalabyggðar, Strandabyggðar- og Reykhóla
7. Fundur Tómstunda, íþrótta- og menningarnefndar 19.júní 2022
8. Fundur Umhverfis- og skipulagsnefndarfundar frá 20. Júní 2022
9. Fundur Atvinnu, dreifbýlis- og hafnarnefndar frá 20. Júní 2022
10. Fundur Fræðslunefndar frá 22. Júní 2022


Þorgeir Pálsson oddviti bauð fundarmenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið og Matthías er með athugasemd varðandi mál sem A-listi óskaði eftir að tekið yrði fyrir á fundinum í dag en oddviti hafnaði því að taka það inn á dagskrá þessa fundar, þar sem það hefði verið tekið fyrir á síðasta fundi nr. 1333. Matthías óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:


“ Beiðni A-listans um að setja mál á dagskrá sveitarstjórnarfundar var hafnað að oddvita með þeim orðum; „ Varðandi fundarefnin þá er búið að ræða fundarefnið og ég sé ekki ásæðu til að endurtaka þá umræðu“ Ég tel það ólíðandi að oddviti telji það í sínum verkahring að leggja mat hvað mál frá sveitarstjórnarmönnum eigi eða megi taka á dagskrá.“


Oddvitið vék því næst af fundi og Grettir Örn Ásmundsson tekur hans sæti sem varamaður T-lista. Sigríður G. Jónsdóttir varaoddviti tekur við stjórn fundarins.


1. Ráðning sveitarstjóra. Lagður fram ráðningarsamningur við Þorgeir Pálsson sem sveitarstjóra. Matthías gerir athugasemd við varamann Þorgeirs á fundinum sem er Grettir Ásmundsson en hann er undirmaður Þorgeirs Pálssonar og því vanhæfur til atkvæðagreiðslu vegna stöðu þeirra í stjórnkerfinu þar sem Grettir er undirmaður Þorgeirs. Matthías fer fram á atkvæðagreiðslu vegna vanhæfis. Þrír kjósa með því að tillagan sé felld og Matthías Lýðsson greiðir atkvæði með tillögunni og Hlíf Hrólfsdóttir situr hjá.
Farið var yfir ráðningarsamninginn og gerði A-listi athugasemd við að samningurinn sé tímasettur frá 1. júni en ekki 1. júlí. Ennfremur gerði A-listi athugasemd við lið 4. að sveitarstjóri geti unnið önnur aukastörf skv. samningnum. A-listi leggur til að sveitarstjóri leggi fram nákvæmar verkskýrslur til sveitarstjórnar til að allt sé skráð. A-listi óskar einnig eftir að öll aukastörf séu samþykkt af sveitarstjórn í heild en ekki eingöngu af varaoddvita. A-listi gerir athugasemd við lið nr. 5 í samningi varðandi þagnarskyldu og að vísað verði til greina sem við eiga í sveitarstjórnarlögum og stjórnsýslulögum. Í lið 6 gerir A-listi athugasemd við umsamin mánaðarlaun, miðað við samanburð sveitarfélaga í svipaðri stærðargráðu og þegar rætt er um sveitarfélag í fjárhagskröggum eins og Strandabyggð sé, þá má benda á að þessi kjör séu of há. Í lið nr. 11 varðandi uppsagnarfrest þá vill A-listi gera athugasemd að réttur til biðlauna eigi eingöngu við starf sveitarstjóra en ekki oddvitahlutann.


A-listi leggur fram eftirfarandi bókun:
„Með ráðningu sveitarstjóra án auglýsingar er verið að ganga á svig við starfsmannastefnu Strandabyggðar þar sem segir: „Að jafnaði eru öll störf sveitarfélagsins auglýst, ráðningarferli er skýrt og starfslýsingar hafðar til hliðsjónar í öllu ferlinu. Ávallt er leitast við að ráða hæfasta umsækjenda til starfa og jafnframt tekið mið af aðstæðum og þörfum vinnustaðarins á hverjum tíma.“ Einnig gengur þetta þvert gegn kosningaloforði T-listans sem segir: „Allar ráðningar í stjórnunarstöður auglýstar.“

Sveitarstjórn gengur til atkvæða um samning með breytingum sem eru taldar upp hér að ofan. Samningur verður sendur til A-lista til staðfestingar á breytingum og sent til samþykkis lögfræðings sveitarfélagsins. Lagt er til að samningur verði undirritaður 24. Júní 2022.


Gengið er til atkvæða með handaruppréttingu og þeir sem eru samþykkir eru þrír fulltrúar T-lista, Matthías Lýðsson greiðir atkvæði á móti og Hlíf Hrólfsdóttir situr hjá.


Grettir víkur nú af fundi og Þorgeir tekur sæti aftur á fundinum.


Oddviti leggur til að fundurinn leiti afbrigða og taki fyrir tvö erindi inn á dagskrána


Erindi frá Tónskólanum á Akureyri vegna tónlistarnáms nemanda frá Strandabyggð og erindi frá Innviðaráðuneyti vegna stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga 2019-2033 og Landsskipulagsstefnu 2015-2026. Sveitarstjórn samþykkir að taka inn afbrigðin og verða þau númer 11 og 12


2. Viðauki III. Lagður fram svohljóðandi viðauki III við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins 2022 á fundi
sveitarstjórnar þann 23. júní 2022.

Gjöld:
a) Kostnaður kaupa á tölvubúnaði fyrir sveitarstjórn kr. 350.000, voru kr. 0 í fjárhagsáætlun
b) Kostnaður vegna aukins umfangs og umsjónarvinnu með fjárgirðingum og réttum fer úr 0 kr. í 500.000. Gert var ráð fyrir smávægilegum kostnaði við girðingar undir opnum svæðum en ekki er þó um tilfærslu að ræða þar sem reikna má með að sú fjárheimild nýtist undir þeim lið.
c) Kostnaður vegna ráðningar sveitarstjóra í 90% stöðugildi frá 1.júní 2022 en gert hafði verið ráð fyrir 100% stöðu sveitarstjóra í 6 mánuði í upphaflegri fjárhagsáætlun 2022. Lagt er til að kostnaður hækki um allt að kr. 500.000 kr. sem er til kominn vegna mánaðarlauna og launatengdra gjalda. Kostnaður vegna oddvitalauna sem eru 10% skv. samþykktum sveitarfélagsins eru færð undir sveitarstjórn og eru áður skráð í áætlun 2022.


Hækkun rekstrarkostnaðar af þessum sökum eru kr. 1.350.000


Framkvæmdir:
a) Lækkun á framkvæmdafé á leikskóla úr 6.000.000 í kr. 4.250.000 þar sem ekki hefur fengist verktaki í lóðaframkvæmdir. Framkvæmdafé færist á félagsheimili vegna smíði inngangs.

b) Smíði inngangs í félagsmiðstöðina Ozon hækkar úr 1.000.000 í 2.750.000 vegna tilboðs frá verktaka og vinnu áhaldahúss v. breytinga á lögnum.


Engin hækkun er á framkvæmdakostnaði þar sem um tilfærslu er að ræða. Viðauki III samþykktur samhljóða.


3. Sumarlokun skrifstofu og næsti fundur sveitarstjórnar

Lagt er til að sumarlokun skrifstofu verði frá 4. -15. Júlí og opnunartími verði skertur frá 22. Júlí og til 5. ágúst vegna leyfa starfmanna. Þetta er gert í hagræðingarskyni og til að einfalda afleysingar í sumarleyfum. Samþykkt samhljóða.


Lagt er til að fundur sveitarstjórnar falli niður í júlí og verði næsti fundur sveitarstjórnar þann 9. Ágúst 2022. Samþykkt samhljóða.

4. Nefndarfundir, boðun og framkvæmd. Rætt um að vanda betur fundarboðanir og framvegis munu nefndarmenn boða fundi í gegnum skrifstofuna og tímanlega. T-listi þakkar A-lista fyrir góðar ábendingar.


5. Skipan fulltrúa í nefndir og ráð:

a. Kjörstjórn. Lagt er til að aðalmenn í kjörnefnd skipi eftirtaldir: Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir, Guðmundur Björgvin Magnússon og Bryndís Sveinsdóttir og til vara Sigurbjörn Úlfarsson, aðrir varamenn verða kosnir á næsta fundi. Samþykkt samhljóða.


b. Fulltrúi í barnaverndarnefnd – Lagt er til að Bryndís Sveinsdóttir sé aðalmaður og Hlíf Hrólfsdóttir sem varamaður. Samþykkt samhljóða


c. Áfallateymi Strandabyggðar. Áfallateymi Strandabyggðar skipar sóknarprestur Anna Eiríksdóttir, félagsmálastjóri Soffía Guðrún Guðmundsdóttir og Kristín Arnardóttir hjúkrunarfræðingur. Varamenn eru Hlíf Hrólfsdóttir, Ingibjörg Birna Sigurðardóttir og Viðar Guðmundsson.


6. Skipun fulltrúa í nefndir og ráð:

a. Fulltrúaráð Vestfjarðarstofu. Lagt er til að Þorgeir Pálsson sé aðalmaður og Matthías Lýðsson er varamaður. Samþykkt samhljóða.


b. Sorpsamlag Strandasýslu. Lagt er til að Þorgeir Pálsson og Sigríður Jónsdóttir séu aðalmenn og Matthías Lýðsson og Ragnheiður Ingimundardóttir sem varamenn. Samþykkt samhljóða.


c. Félagsþjónustu Stranda- og Reykhólahrepps. Lagt er til aðalmaður sé Hlíf Hrólfsdóttir og varamaður Barbara Guðbjartsdóttir, samþykkt samhljóða


d. Brunavarnir Dala, Reykhóla- og Stranda, kosning varamanns, lagt er til að fresta til næsta fundar. Samþykkt samhljóða.


e. Náttúrustofa Vestfjarða. Lagt er til að Matthías Sævar Lýðsson verði aðalmaður. Varamaður verður skipaður á næsta fundi. Samþykkt samhljóða.


f. Svæðisskipulag, Dalabyggðar, Strandabyggðar- og Reykhóla. Lagt er til að aðalmaður verði Matthías Sævar Lýðsson og varamaður er skipaður á næsta fundi. Samþykkt samhljóða.


7. Fundur Tómstunda, íþrótta- og menningarnefndar 19.júní 2022. Fundargerð kynnt og lögð fram til samþykktar. Samþykkt samhljóða.


8. Fundur Umhverfis- og skipulagsnefndarfundar frá 20. Júní 2022. Fundargerð kynnt og lögð fram til samþykktar. Til viðbótar framlagðri fundargerð tók formaður fram að allir fundarmenn hafi undirritað trúnaðaryfirlýsingu.

Varðandi lið 2. leggur nefndin til að sveitarstjórn samþykki erindið. Samþykkt samhljóða.
Varðandi lið 3. leggur nefndin til að erindið verði samþykkt. Samþykkt samhljóða með ábendingum nefndarinnar til framkvæmdaraðila.
Varðandi lið nr. 4 leggur nefndin til að sveitarstjórn láti meta kostnað við báðar leiðir. Varðandi lið nr. 5 mun formaður kalla eftir gögnum frá hlutaðeigandi.
Varðandi lið a. undir önnur mál tekur sveitarstjórn undir að þessi umræða sé mikilvæg og í raun í gildi og mun ýta málinu áfram í samráði við Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða.

Sveitarstjórn samþykkir fundargerðina að öðru leiti.


9. Fundur Atvinnu, dreifbýlis- og hafnarnefndar frá 20. Júní 2022. Farið yfir fundargerðina og hún kynnt. Samþykkt samhljóða.


10. Fundur Fræðslunefndar frá 22. Júní 2022. Farið yfir fundargerðina og hún kynnt. Varðandi liðinn önnur mál og 1. málsgrein leggur sveitarstjórn til að málinu verði vísað til fjárhagsáætlunargerðar. Varðandi 2. málsgrein um saminga eða útboð mötuneytis er oddvita falið að vinna að málinu. Varðandi 3. málsgrein tekur sveitarstjórn undir tillöguna og mun leitast til að framkvæma eins mikið af verkefnum og fjárhagur og aðgengi að verktökum leyfir. Að öðru leiti er fundargerðin samþykkt samhljóða.


11. Erindi frá Tónskólanum á Akureyri vegna tónlistarnáms nemanda frá Strandabyggð. Sveitarstjórn fagnar erindinu og samþykkir að hafa milligöngu um kostnað við tónlistarnámið. Sveitarfélagið ábyrgist greiðslur og mun sækja um endurgreiðslu kostnaðar til Jöfnunarsjóðs. Samþykkt samhljóða.


12. Innviðaráðuneyti vegna stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga 2019-2033 og Landsskipulagsstefnu 2015-2026. Lagt fram erindi Innviðaráðuneytis. Oddviti leggur til að sveitarstjórn vísi þessu til oddvita til afgreiðslu. Samþykkt samhljóða.


Fundargerð lesin upp og fundi er slitið kl. 15.36
Þorgeir Pálsson
Grettir Örn Ásmundsson
Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir
Jón Sigmundsson
Hlíf Hrólfsdóttir
Matthías Sævar Lýðsson

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón