A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn Strandabyggđar - 27. júlí 2010

Þann 27. júlí 2010 var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Hann var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Hafnarbraut 19 á Hólmavík og hófst kl. 18:20. Jón Gísli Jónsson oddviti sveitarstjórnar bauð fundarmenn hjartanlega velkomna, setti fundinn og stjórnaði honum. Auk hans sátu fundinn Jón Jónsson og Bryndís Sveinsdóttir sveitarstjórnarmenn og Viðar Guðmundsson og Ingibjörg Benediktsdóttir varamenn. Jón Jónsson ritaði jafnframt fundargerð. Á dagskrá er:

 

1. Skýrsla oddvita.

2. Ráðning sveitarstjóra.

3. Umræður um gjaldskrár sveitarfélagsins.

4. Umræður um viðhald á fasteignum sveitarfélagsins.

5. Ráðning umsjónarmanns með félagsstarfi aldraðra.

6. Umræður um samstarf sveitarfélaga á Ströndum.

7. Kerfis- og gagnahýsing fyrir Strandabyggð.

8. Fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar dags. 14. júlí 2010.

9. Fundargerð Atvinnumála- og hafnarnefndar Strandabyggðar dags. 26. júlí 2010.

 

Oddviti lagði til að við bættist 10. mál á dagskrá sem er bréf varðandi lausagöngu hunda á Hólmavík og var það samþykkt samhljóða.

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

1. Skýrsla oddvita.

Lögð fram skýrsla oddvita og varaoddvita um störf þeirra frá síðasta fundi. Þar kemur meðal annars fram að bilun varð í stýribúnaði fyrir vatnsveitu í dæluhúsinu við Ósá og var ekki hægt að tryggja nægilegt vatnsmagn á Hólmavík með öruggum hætti. Keypt var ný stýring og er ætlunin að gera við þá biluðu og hafa til vara. Jafnframt voru settar upp viftur til að halda hita í dæluhúsinu og skápum þar í skefjum. Þórólfur H. Hafstað frá ÍSOR er búinn að gera frekari rannsóknir um vatnsöflun fyrir Hólmavík og mun skila skýrslu um niðurstöður sínar.

 

Unnið er að því að koma í veg fyrir leka í Íþróttamiðstöð sem hefur verið viðvarandi frá byggingu hússins. Sveitarstjórn fer fram á að lausn verði fundin og verktakar ljúki viðgerð sem fyrst.

 

Farin var vettvangsferð með Snorra Jónssyni starfsmanni Áhaldahúss og einnig fundað með Sigurði Marinó. Helstu niðurstöður voru þessar: Lögð er áhersla á að gera gámasvæði í Skothúsvík tilbúið sem allra fyrst og verður síðan gámaeigendum boðið að færa gáma sína þangað úr Skothúsvíkinni, af Skeiðinu og víðar. Hugmynd kom fram um geymslusvæði til framtíðar, þar sem sveitarfélagið leigði út pláss, og var ákveðið að athuga með svæði í grennd við Hnitbjörg. Samþykkt að teikning af hugsanlegu geymslusvæði fari til umræðu í Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefnd.

 

Þá kemur fram í skýrslu oddvitanna að ákveðið hafi verið að leggja túnþökur á svæðið þar sem Hilmir stóð og víðar á Hólmavík. Farið var yfir girðingar í landi Skeljavíkur og Víðidalsár sem má fjarlægja. Starfsmenn áhaldahúss hafa unnið að girðingu og lóð Leikskólans Lækjarbrekku síðustu vikur og er stefnt að verklokum áður en skólinn kemur úr sumarfríi.

 

Fram kemur að framkvæmdir við hús sveitarfélagsins að Skólabraut 18 sem búið er að samþykkja og eru á fjárhagsáætlun eru ekki hafnar. Ákveðið að fara í framkvæmdir sem fyrst.

 

Eftir skoðunarferð um Grunnskólann á Hólmavík, í fylgd skólastjóra, gera oddvitar tillögu um að mála tvær stofur í skólanum og skipta þar um ljós. Jafnframt að mála stigagang að mötuneyti. Starfsmenn áhaldahúss sjái um þessar framkvæmdir og verði þeim lokið fyrir 15. ágúst. Sveitarstjórn leggur jafnframt til að gerð verði áætlun um uppsetningu á nýrri girðingu neðan við leikvöll við skólann í haust og að gerðar verði tröppur upp frá bankabrekkunni.

 

Starfsmenn áhaldahúss lögðu jafnframt til á fundinum með oddvitum að samdar verði reglur um snjómokstur í samvinnu sveitarstjórnar og starfsmanna áhaldahúss og tekur sveitarstjórn undir það.

 

Í skýrslu oddvita kemur fram að haldinn var vinnufundur með Kristínu S. Einarsdóttir starfsmanni Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Fyrir liggur að teikna upp og skipuleggja 1. hæð Þróunarseturs og gera í framhaldi af því drög að leigusamningi, auk þess að gera kostnaðaráætlun – allt áður en endanleg ákvörðun er tekin. Sveitarstjórn er jákvæð fyrir verkefninu og leggur áherslu á að ná niðurstöðu sem fyrst.

 

Í framhaldi af umræðu um skýrslu oddvitanna var rætt um að fá Lionsklúbb Hólmavíkur til að fjarlægja gömul útihús í Brandskjólum og rædd staða mála við samningagerð í tengslum við skólastarf.

 

2. Ráðning sveitarstjóra.

Tekinn var til umræðu ráðningarsamningur við Ingibjörgu Valgeirsdóttur um starf sveitarstjóra í Strandabyggð. Samningurinn var staðfestur samhljóða af sveitarstjórn og Ingibjörg boðin hjartanlega velkomin til starfa hjá Strandabyggð.

 

3. Umræður um gjaldskrár sveitarfélagsins.

Lögð var fram tillaga um gjaldskrá fyrir byggingarleyfisgjöld og tengigjöld holræsa og vatnsveitu. Samþykkt var að senda tillöguna til byggingafulltrúa til umsagnar og taka hana fyrir aftur á næsta fundi.

 

4. Umræður um viðhald á fasteignum sveitarfélagsins.

Rætt var um viðhald á fasteignum sveitarfélagsins og voru sveitarstjórnarmenn sammála um að því hefði ekki verið sinnt sem skyldi síðustu ár. Lögð var fram tillaga um að skipaður væri starfshópur heimamanna til að gera yfirlit yfir þörf á viðhaldi á öllum fasteignum í eigu sveitarfélagsins og tillögu um forgangsröð. Tillaga kom fram um Valgeir Örn Kristjánsson, Kristjönu Eysteinsdóttur, Jóhann L. Jónsson, Ingibjörgu Benediktsdóttur og Snorra Jónsson í starfshópinn og var hún samþykkt samhljóða.

 

5. Ráðning umsjónarmanns með félagsstarfi aldraðra.

Tekin var til umfjöllunar ráðning umsjónarmanns með félagsstarfi aldraðra. Ein umsókn barst frá Ingibjörgu Sigurðardóttur og var samhljóða samþykkt að ráða hana í starfið.

 

6. Umræður um samstarf sveitarfélaga á Ströndum.

Rætt var um samstarf sveitarfélaga á Ströndum fyrr og nú. Samþykkt var samhljóða tillaga um að bjóða öllum sveitarstjórnarmönnum í Bæjarhreppi, Kaldrananeshreppi og Árneshreppi til fundar til að ræða þessi mál. Rætt var um að æskilegt væri að halda slíkan fund sem allra fyrst og fyrir Fjórðungsþing Vestfirðinga, svo Strandamenn geti um leið rætt helstu áherslur og hagsmunamál svæðisins í vestfirsku samstarfi.

 

7. Kerfis- og gagnahýsing fyrir Strandabyggð.

Rætt var um kerfisleigu og gagnahýsingu fyrir Strandabyggð. Samþykkt að láta málið ekki dragast frekar og ganga frá kaupum á slíkri þjónustu hið fyrsta. Jóni Jónssyni falið að kanna stöðu mála og gera tillögu.

 

8. Fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar dags. 14. júlí 2010.

Lögð er fram til samþykktar fundargerð Menningarmálanefndar Strandabyggðar sem dagsett er 14. júlí 2010. Sveitarstjórn samþykkir þá dagsetningu sem Menningarmálanefnd gerir tillögu um vegna næstu Hamingjudaga og verður hátíðin samkvæmt því haldin 30. júní – 3. júlí árið 2011. Sveitarstjórn telur hins vegar ekki þörf á að ráða framkvæmdastjóra fyrir næstu áramót vegna Hamingjudaga 2011. Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða. Einnig var samþykkt samhljóða að birta skýrslu framkvæmdastjóra Hamingjudaga á vef Strandabyggðar.

 

9. Fundargerð Atvinnumála- og hafnarnefndar Strandabyggðar dags. 26. júlí 2010.

Lögð fram til samþykktar fundargerð Atvinnumála- og hafnarnefndar Strandabyggðar frá 26. júlí 2010. Í tengslum við lið 2 í fundargerðinni var rætt um þann vanda sem húsnæðisskortur á staðnum skapar fyrir atvinnulíf og jákvæða byggðaþróun og voru menn sammála um að leita lausna. Fundargerð nefndarinnar var samþykkt samhljóða.

 

10. Bréf varðandi lausagöngu hunda á Hólmavík

Lagt var fram bréf frá Stefáni Gíslasyni dags. 24. júlí þar sem fjallað er um hundsbit á Hólmavík og lausagöngu hunda. Sveitarstjórn minnir á að í gildi er samþykkt um hundahald í Strandabyggð. Þar og í lögreglusamþykkt kemur skýrt fram að lausaganga hunda er alfarið bönnuð í þéttbýlinu á Hólmavík. Sveitarstjórn hvetur íbúa og gesti Strandabyggðar til að fylgja þessum reglum og telur jafnframt eðlilegt að þeir sem verði fyrir áreitni eða árás hunds tilkynni það í öllum tilvikum til lögreglu. Ennfremur er samþykkt að fara yfir reglugerðina.

 

Fundargerð lesin upp og hún samþykkt athugasemdalaust. Fundi slitið kl. 20.37.

 

Jón Gísli Jónsson (sign)
Bryndís Sveinsdóttir (sign)

Viðar Guðmundsson (sign)
Ingibjörg Benediktsdóttir (sign)

Jón Jónsson (sign)

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón