A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Fimmta og síðasta sýning: Gott kvöld

| 05. janúar 2012
Vegna flugeldasýningar Björgunarsveitarinnar Dagrenningar hefur síðasta sýning Leikfélags Hólmavíkur á leikritinu Gott kvöld, sem sýnd verður föstudaginn 6. janúar, verið færð til um klukkutíma og hefst hún kl. 21:00 en ekki kl. 20:00 eins og áður var auglýst.  Leikritið Gott kvöld sem er eftir Áslaugu Jónsdóttur er sett á fjalirnar hér á Hólmavík undir leikstjórn Kristínar S. Einarsdóttur. Leikritið var frumsýnt 29. desember en á þriðja tug einstaklinga á öllum aldri taka þátt í sýningunni sem er bæði litrík og skemmtileg. Gott kvöld er ávísun á gott kvöld fyrir fólk á öllum aldri!

Byggðakvóti fiskveiðiárið 2011/2012

| 05. janúar 2012
Hólmavíkurhöfn. Mynd Jón Jónsson.
Hólmavíkurhöfn. Mynd Jón Jónsson.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur úthlutað 132 þorskígildistonn í byggðakvóta til Hólmavíkur fiskveiðiárið 2011/2012, sjá hér. Er það hækkun um 32  þorskígildistonn frá fyrri árum sem er ein af breytingum í reglugerð um úthlutun byggðakvóta til byggðalaga. Meðal annarra breytinga má nefna að ákveðið hefur verið að halda eftir 6% af heildarmagni byggðakvótans til þess að mæta hugsanlegum leiðréttingum m.a. vegna einstakra kærumála og er ráðgert að úthlutun til skipa þurfi ekki að stöðva þótt kæra berist frá útgerðaraðila í viðkomandi byggðarlagi. Fiskistofa annast úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á grundvelli þeirra reglna sem um það gilda.

...
Meira

Árneshreppur styrkir Upplýsingamiðstöðina á Hólmavík

| 05. janúar 2012
Árneshreppur. Mynd: Svanlaug Sigurðardóttir.
Árneshreppur. Mynd: Svanlaug Sigurðardóttir.
Árneshreppur styrkti rekstur Upplýsingamiðstöðvarinnar á Hólmavík um kr. 150.000 fyrir árið 2011. Er þetta mikið ánægjuefni en Upplýsingamiðstöðin á Hólmavík er vel sótt af bæði innlendum og erlendum ferðamönnum. Upplýsingamiðstöðin á Hólmavík hefur lagt ríka áherslu á að veita ítarlegar upplýsingar um þjónustu, mannlíf, landslag og möguleika á eftirminnilegri upplifun í sveitarfélögum á Ströndum og Vestfjörðum öllum.  Sveitarfélagið Kaldrananeshreppur styrkti starfsemina einnig eins og greint var frá í haust, en góð samvinna er á milli sveitarfélaga á svæðinu um fjölbreytt verkefni.

Breytingar á gjaldskrám í skólum í Strandabyggð

| 03. janúar 2012
Myndir frá þemadögum í Grunn- og Tónskólanum á Hólmavík. Mynd IV.
Myndir frá þemadögum í Grunn- og Tónskólanum á Hólmavík. Mynd IV.

Frá og með 1. janúar 2012 hækka vistunargjöld í leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík um 10% eins og greint var frá hér. Fyrir 8 tíma vistun hækka gjöldin úr kr. 17.600 í kr. 19.690. Systkinaafsláttur verður áfram 50% fyrir vistun hvers barns umfram eitt.  Þrátt fyrir hækkunina eru leikskólagjöld í Strandabyggð enn með þeim allra lægstu í sveitarfélögum á Vestfjörðum. Gjaldskrá fyrir leikskólann Lækjarbrekku má sjá hér.

Skólagjöld í Tónskóla Hólmavíkur hækka um 15% eða úr kr. 17.787 í kr. 20.455 fyrir hverja námsönn. Áfram verður afsláttur fyrir systkini sem hér segir:
2. barn 25% afsláttur
3. barn 50% afsláttur
4. barn eða fleiri 75% afsláttur.

Önnur skólatengd gjöld, s.s. Skólaskjól, leikskólamáltíðir og mötuneyti fyrir grunnskólabörn hækka um 5% eða í samræmi við almenna verðlagsþróun, sjá hér.

Slökkvibifreið auglýst til sölu í Strandabyggð

| 03. janúar 2012
Slökkvilið Strandabyggðar auglýsir slökkvibifreið til sölu.
Slökkvilið Strandabyggðar auglýsir slökkvibifreið til sölu.
« 1 af 5 »
Slökkvilið Strandabyggðar auglýsir slökkvibifreið til sölu af gerðinni Mercedes Bens Unimog og er árgerð 1975. Bifreiðin er ekin 25.000 km og er á óslitnum negldum dekkjum. Hún er með 2.400 lítra dælu með háþrýstiþrepi og 1.200 lítra vatnstank. Slökkvibifreiðinni fylgja sogbarkar og stigi úr timbri. Allar nánari upplýsingar um bifreiðina veitir Einar Indriðason slökkviliðsstjóri í síma 893-3531.

Tilboð í bifreiðina þurfa að berast skrifstofu Strandabyggðar að Höfðagötu 3, 510 Hólmavík, eða með tölvupósti í netfangið sveitarstjori@strandabyggd.is fyrir kl. 12:00 á hádegi mánudaginn 16. janúar 2012. Sveitarfélagið Strandabyggð áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum.




Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón